Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Smávirkjanir

Smávirkjun eða bændavirkjun er flokkur lítilla virkjana sem byggja á tiltækum orkugjöfum á viðkomandi stað. Smávirkjun getur verið knúin fallorku vatns, vindi, sól, lághita frá jarð- eða glatvarma eða öllum orkugjöfunum saman.

Smávirkjun eða bændavirkjun er flokkur lítilla virkjana sem byggja á tiltækum orkugjöfum á viðkomandi stað. Smávirkjun getur verið knúin fallorku vatns, vindi, sól, lághita frá jarð- eða glatvarma eða öllum orkugjöfunum saman. Smávirkjun er almennt ætluð til raforkuframleiðslu til eigin nota á sveitabæ, í sumarbústað eða í smærri byggðarlögum en getur einnig selt orku inn á dreifikerfi rafmagnsveitna eða deilt umframrafmagni inn á dreifikerfi eftir nánara samkomulagi við eiganda og rekstraraðila kerfisins. Margar heimarafstöðvar knúnar fallorku vatns voru byggðar á fyrri hluta 20. aldar og um 1950 voru þær um 530 talsins. Þeim fækkaði hins vegar með rafvæðingu sveitanna og árið 1992 voru 175 smávirkjanir í notkun á Íslandi (minni en 300 kw). Á árunum 2000 til 2022 voru byggðar eða endurnýjaðar um 38 smávirkjanir til raforkuframleiðslu inn á dreifikerfið en fjölmargar af eldri virkjunum hafa einnig gengið í endurnýjun lífdaga sem heimarafstöðvar.

Smávirkjanir flokkast almennt þannig að ef uppsett afl er undir 11 kW er virkjunin örvirkjun, smávirkjun án virkjunarleyfis er allt að 100 kW,  en ef uppsett afl er á bilinu 100 til 300 kW telst hún lítil smávirkjun en þar fyrir ofan, allt að 9,9 mW, telst hún lítil virkjun. Virkjanir yfir 9,9 mW falla undir rammaáætlun um nýtingu og verndun.

Á kortasjá Orkustofnunar má sjá á einum stað allar skráðar virkjanir, heimarafstöðvar og virkjanakosti yfir 100 kW.

Það er að ýmsu að huga þegar kemur að undirbúningi smávirkjana. Það fer eftir eðli (vatn, vindur, jarðhiti eða sól) og uppsettu afli virkjunar hvort og þá hvers konar leyfis þarf afla og einnig hvort stefnan sé sett á að selja raforku inn á dreifikerfi eða flutningsnet.

Virkjunarleyfi

Sameiginlegt með öllum gerðum virkjana með uppsett afl undir 1 MW er að þær þarfnast ekki virkjunarleyfis nema tengja eigi virkjun við dreifikerfi eða flutningsnet. Einnig þarf ekki virkjunarleyfi vegna virkjana með uppsett afl undir 100 kW.

Þrátt fyrir að ekki þurfi virkjunarleyfi þurfa eigendur virkjana með uppsett afl 30 kW til 1000 kW að standa skil á tæknilegum upplýsingum um virkjun til Orkustofnunar. Jafnframt skal tilkynna Orkustofnun árlega um heildarraforkuvinnslu raforkuvera með uppsettu afli yfir 100 kW.

Sé ætlunin að stunda raforkuviðskipti þarf að afla leyfis Orkustofnunar. Slíkt leyfi felur hvorki í sér sérleyfi né önnur sérréttindi til handa leyfishafa. Umsækjendur þurfa að sýna fram á fjárhagslegan styrkleika til að efna skuldbindingar vegna starfseminnar.

Orkustofnun getur eingöngu veitt lög- og skattaðilum virkjunarleyfi og leyfi til raforkuviðskipta.

Rannsóknarleyfi

Sækja þarf um leyfi til Orkustofnunar til rannsókna á vatnsafli og jarðhita til raforkuframleiðslu samkvæmt 1. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 68/2008. Fyrir leyfisveitingu er leitað umsagnar umhverfisráðuneytis og að auki forsætisráðuneytis í þjóðlendum þegar það á við. Einnig ber að leita umsagnar landeigenda viðkomandi jarðar í samræmi við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rannsóknarleyfi skal veitt einum aðila á hverju svæði. Leyfið felur í sér heimild til þess að leita að viðkomandi auðlind á tilteknu svæði á leyfistímanum og rannsaka umfang, magn og afkastagetu hennar. Landeigandi þarf ekki leyfi vegna rannsókna sem fara fram á hans landi. Þó ber landeiganda að senda Orkustofnun áætlun og lýsingu á fyrirhuguðum borunum, sprengingum, gerð námuganga eða öðrum verulegum framkvæmdum í þessu skyni.

Í umsókn um rannsóknaleyfi þarf m.a. að tilgreina, tilgang rannsóknar og nýtingar, rannsóknaráætlun, afmörkun rannsóknarsvæðis og líkleg áhrif nýtingar á nærliggjandi svæði. Einnig þarf að skila lista yfir þinglýsta landeigendur á fyrirhuguðu rannsóknarleyfissvæði.

Nýtingarleyfi

Sækja þarf um nýtingarleyfi til Orkustofnunar til að nýta jarðhita og vatn hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða í þjóðlendum, með þeim undantekningum sem nánar er fjallað um í lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda nr. 57/1998. Landeigandi hefur ekki forgang að nýtingarleyfi vegna auðlindar í eignarlandi sínu, nema hann hafi áður fengið útgefið rannsóknarleyfi.
Nýtingarleyfi felur í sér heimild til handa leyfishafa til að vinna úr og nýta viðkomandi auðlind á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum sem tilgreindir eru í lögum og Orkustofnun telur nauðsynlega. 

Umhverfismat áætlana og framkvæmda

Áður en sótt er um tilskilin leyfi til framkvæmda við virkjun þarf að kanna hvort hún sé háð umhverfismati áætlana og framkvæmda skv. lögum nr. 111/2021. Þar ræður bæði gerð virkjunar og uppsett afl hennar. Tilkynna þarf til Skipulagsstofnunar um virkjunaráform og hún tekur svo ákvörðun um hvort fara þurfi fram mat á umhverfisáhrifum. Eftirtaldar virkjanir eru tilgreindar sem tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar:

·       Vatnsaflsvirkjun stærri en 200 kW

·       Vindorkuver með uppsett rafafl 1 MW eða meira eða mannvirki sem eru 25 metrar eða hærri.

·       Jarðvarmaver eða iðjuver til framleiðslu á rafmagni, gufu og heitu vatni sem nemur 2.500 kW uppsettu afli

eða meira 

Framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi

Framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar þarf samkvæmt Skipulagslögum nr. 123/2010 fyrir meiri háttar framkvæmdum sem ekki eru háðar byggingarleyfi. Allar framkvæmdir þurfa að vera í samræmi við staðfest skipulag viðkomandi sveitarfélags áður en hægt er að sækja um byggingarleyfi fasteigna.

Starfsleyfi

Fyrir virkjanir með uppsett rafafl 2 MW eða meira þarf starfsleyfi heilbrigðisnefndar í viðkomandi sveitarfélagi samkvæmt reglugerð nr. 550/2018 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í sumum tilfellum getur tímabundin starfsemi á framkvæmdatíma minni virkjana einnig verið starfsleyfisskyld, t.d. ef setja þarf upp vinnubúðir fyrir starfsmenn.

Leyfi Minjastofnunar

Samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda, breyta, hylja, laga, aflaga né úr stað flytja fornleifar nema með leyfi Minjastofnunar. Því þarf að sækja um leyfi ef í ljós kemur að framkvæmdir við virkjun hafa áhrif á fornleifar.

Önnur leyfi

Vatnsaflsvirkjanir: Samkvæmt 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax og silungsveiði er sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, háð leyfi Fiskistofu.

Vatnsafl

Litlar virkjanir í vatnsafli eru flokkaðar eftir þremur meginþáttum en það eru uppsett afl, virkjuð fallhæð og hvort virkjun sé rennslisvirkjun eða með miðlunarlóni.

Þeir sem hyggja á byggingu eða endurnýjun smávirkjunar þurfa að huga að nokkrum mikilvægum þáttum:                

Rennslismæling

Rennslismæling í vatnsfalli sem nær yfir a.m.k. 1 ár eða lengur. Munur á rennsli eftir árstíðum getur verið mikill og vetrarmánuðir, þegar mest þörf er á raforku, eru oft nær vatnslausir.
Leiðbeiningar um mælingar á vatnsrennsli í smáám og lækjum                 
Excel-skjal til útreiknings á rennsli út frá vatnshæð – Töflureikniskjal í stað handvirkra útreikninga í ritinu

Hönnun eða endurhönnun

Hönnun eða endurhönnun á stíflu og inntaki
Litlar vatnsaflsvirkjanir: Kynning og leiðbeiningar um undirbúning 

Val á búnaði

Val á aðveitulögn og vélbúnaði eftir áætluðu vatnsmagni og væntanlegri aflgetu virkjunar.
Litlar vatnsaflsvirkjanir: Kynning og leiðbeiningar um undirbúning 

Leyfisveitingar

Smávirkjanir: Leiðbeiningar um tilkynningaskyldar vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl að 10 MW

Virkjunarkostir

Orkustofnun og landahlutafélög hafa unnið nokkrar skýrslur um mögulega virkjunarkosti:

Sólarorka

Sólarorka er sú tegund orkuframleiðslu sem vaxið hefur hvað hraðast í heiminum á síðustu misserum og þar hafa lítil sólarorkuver á þökum heimila og fyrirtækja leikið stórt hlutverk og eru um helmingur sólarorkuframleiðslunnar. Margt smátt gerir eitt stórt og þessi litlu sólarorkuver leika nú þegar stórt hlutverk í orkuskiptum heimsins. Uppsett afl sólarorku í heiminum hefur síðasta rúma áratug tvöfaldast á um þriggja ára fresti. Þessi þróun hefur þegar náð á norðlægar slóðir. Þannig var í Finnlandi í árslok 2021 búið að tengja 39.000 lítil sólarorkuver við dreifikerfi raforku, en Finnland er allt norðan við 60° norðlægrar breiddar. Algengast er að lítil sólarorkuver á húsþökum séu hliðtengd við dreifikerfi raforku. Þegar sólarorkan nægir ekki húsinu bætir hefðbundið dreifikerfi því við sem upp á vantar, en umframframleiðslan er afhent eða seld inn á dreifikerfið. Einnig er hægt að setja upp rafgeymakerfi eða blanda saman smávirkjunum.

Orkuöflun með sólarorku er vel raunhæf á Íslandi, en framleiðslan er þó lítil yfir dimmustu vetrarmánuðina. Í Norður-Evrópu hefur reynslan sýnt að full afköst sólarsella nást um 10% tímans í meðalári en á Íslandi má búast við aðeins lægri nýtingarhlutfalli eða um 9% af uppsettu afli.

Kostnaður við sólarorkuver er fyrst og fremst kaup á búnaði og uppsetning, en þegar því er lokið er viðhaldskostnaður lítill og líftími á sólarsellunum getur verið afar langur, og algengt að þær séu seldar með 25 ára framleiðendaábyrgð. Uppsetning þeirra nýtur engra ríkisstyrkja líkt og víða í Evrópu, en þar hefur uppsetning sólarorkuvera notið styrkja eða ívilnana vegna orkuskipta. Rétt er þó að geta þess að eftir að lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar (78/2002) var breytt árið 2022 eru allar umhverfisvænar orkuöflunarleiðir styrkhæfar á köldum svæðum. Íbúar þeirra svæða ættu því að geta fengið sambærilegan styrk til uppsetningar á sólarorkuveri og annars fengist fyrir varmadælu.

Nú þegar eru nokkur lítil sólarorkuver starfrækt á Íslandi sem ekki eru samtengd dreifikerfi raforku, til dæmis sólarorkuver IKEA í Garðabæ, orkuver Brimborgar á Polestar-salnum og orkuver Fallorku í Grímsey.

Vindrellur

Vindorka er endurnýjanleg orka og með sífellt lægri stofnkostnaði er hún að festa sig í sessi sem raunverulega samkeppnishæfur valkostur í raforkuframleiðslu.

Aðstæður til orkuframleiðslu úr vindi eru mjög góðar á Íslandi vegna hagstæðra vindaskilyrða. Ekki er ráðlegt að styðjast eingöngu við vindorku sem orkugjafa en framleiðsla vindorku hentar mjög vel t.d. með orku úr vatnsafli þar sem hægt er að geyma vatn í lónum þegar vindurinn blæs en nýta vatnsaflið þegar vindskilyrði eru síðri. Rafhlöður geta gegnt sama hlutverki en í takmarkaðri mæli. Vegna þess að stofnkostnaður við vindorkuver lækkar stöðugt verður vindorkan sífellt betri kostur til að svara eftirspurn eftir orku hér á landi og eykur líkur á hagstæðu og samkeppnishæfu orkuverði. Litlar vindrafstöðvar á bilinu 0.5 til 3 kW geta nægt heimili eða sumarhúsi til lýsingar og keyrslu smærri tækja en til matseldar eða hleðslu rafbíla þarf mun stærri rellur eða 4–10 kW .

 Áður en ráðist er í að virkja vindinn þarf að gera mat á vindafari, sem getur verið mjög svæðisbundið. Svæðisbundnar breytingar ráðast mest af hæð í landi, en vindur er alla jafna meiri á hálendi en á láglendi og mestur við fjallstinda ásamt því að vindhraði er misjafn eftir árstíðum. Veðurstofa Íslands hefur gefið út vindaatlas þar sem hægt er að nálgast staðbundnar upplýsingar frá veðurstöðvum á Íslandi.

Varmaafl

Jarðhiti á Íslandi á rætur að rekja til úrkomu sem kemst í snertingu við heitan berggrunn líkt og gerist á flekamótum annars staðar á jörðinni. Tengslin við eldvirknina eru þó mismikil, mest á háhitasvæðum sem eru öll tengd virkum eldstöðvum og líklegum kvikuinnskotum. Tengsl eru óbeinni á lághitasvæðum, en þar gætir þó áhrifa eldvirkninnar í hitaástandi jarðskorpunnar.

Langmestur hluti af nýtingu jarðhitans hér á landi fer til húshitunar. Beinni notkun jarðhita er skipt niður í flokkana húshitun, snjóbræðslu, fiskeldi, sundlaugar, iðnað og ylrækt, en raforkuframleiðsla telst til óbeinnar notkunar. 

Raforkuframleiðsla með lághita fer vaxandi en mest er um að notuð séu tvífasa kerfi þar sem heitt vatn veldur suðu og þrýstiaukningu á rokgjörnum vökva sem knýr túrbínu eða dælu. Vatnið missir þannig orku og kólnar í ferlinu en er þá gjarnan notað í framhaldinu til húshitunar eða baða.

Samrekstur margra kosta

Flestir smávirkjanakostir hafa takmarkanir hvað varðar stöðugt orkuframboð. Veturinn er dimmur á Íslandi og þá skila sólarorkuver litlu. Ár og lækir frjósa og vatnsaflið þverr. Á sama tíma blæs vindurinn af krafti. Með samrekstri nokkurra kosta má brúa bilið og jafna út orkuframleiðsluna. Rafhlöður geta svo fyllt í mismunandi álag innan dagsins.

Rafbúnaður til að tengja saman mismunandi orkukosti verður sífellt ódýrari og fullkomnari.

Ef tengjast á við dreifikerfið þarf búnaðurinn m.a. að uppfylla ÍST EN 50549-1 staðal en almennt gildir Reglugerð um raforkuvirki um smávirkjanir.

Algengt er að sami stjórnbúnaður stjórni framleiðslu frá sólarveri og vindrellu auk smærri virkjana í vatnsafli. Búnaðurinn tengist rafhlöðum en einnig almenna dreifikerfinu og eykur þannig orkuöryggi, bætir gæði raforkunnar og minnkar álag á dreifikerfið.