Eldsneyti og orkuskipti
Orkunotkun í heiminum byggir að mestu á eldsneyti hvort sem um ræðir samgöngur, húshitun, iðnað eða raforkuframleiðslu. Á Íslandi er raunin önnur enda er heildarhlutdeild endurnýjanlegrar orku í orkubúskap landsins með því hæsta sem gerist í heiminum.
Á Íslandi er eldsneyti að langstærstum hluta notað til samgangna á láði, legi og í lofti. Samkvæmt þingsályktun um aðgerðaráætlun um orkuskipti er stefnt að því að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum. Allar aðstæður eru fyrir hendi til að Ísland geti sett gott fordæmi varðandi orkuskipti og mikil jákvæð reynsla er af slíkum aðgerðum í landinu en hitaveituvæðingin er gott dæmi um slíkt. Til að geta staðið við skuldbindingar Íslands vegna Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál er full ástæða til að hafa allar klær úti með það að markmiði að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum.
Orkustofnun leggur áherslu á að halda hlutverki sínu sem brautryðjanda í orkuskiptum fyrir þjóðfélagið. Í því samhengi má nefna að stofnunin hefur unnið og birt endurskoðaða samgöngustefnu, gert samkomulag um samstarf við deilibílaþjónustu og komið sér upp rafhjóli fyrir starfsmenn.